Spádómarnir um Ísland

 Skemmtileg og áhugaverð lesning en það er erfitt að trúa þessu þó maður viti aldrei.

 

Spádómarnir um Ísland


Að koma framsókn mannkynsins í hið rétta horf,
það er hlutverk íslensku þjóðarinnar.


Helgi Pjeturss


Skömmu fyrir upphaf síðari heimsstyrjaldar vöktu kenningar enska pýramídafræðingsins Adams Rutherfords verulega athygli hér á landi. Dr. Adam Rutherford hafði stundað nákvæmar rannsóknir á Pýramídanum mikla við Giza í Egyptalandi. Líkt og flestir pýramídafræðingar þess tíma hélt Rutherford því fram að Pýramídinn mikli væri spádómsverk greypt í stein. Hið forna arabíska Akbar-Ezzeman-handrit staðfestir þessa skoðun. Í handritinu segir: ,,Hann þ.e. Pýramídinn mikli hefir í sér fólgna spekina og kunnáttuna í ýmsum listum og vísindum, í talnafræði og landmælingafræði, svo að þær geti geymst sem skýrslur til gagnsmuna fyrir þá er síðar meir geta skilið þær... afstöðu stjarnanna og umferð þeirra, ásamt sögu og annálum frá liðnum tímum og þeim tímum er koma eiga."

Adam Rutherford taldi Pýramídann mikla skýra frá rúmfræðilegri hnattstöðu Íslands og benda með táknum á ætlunarverk Íslands viðvíkjandi undirbúningi nýskipanar heimsins sem hann trúði að væri í vændum. Árið 1937 gaf hann út í Bretlandi litla bók sem bar titilinn ,,Hin mikla arfleið Íslands" (Iceland´s Great Inheritance). Í formála, sem hann reit fyrir kverinu, segir:

    Ísland er eitt af merkilegustu löndum heimsins, og blöðin, sem hér fara á eftir, hafa að innihaldi sönnun þess, að þessari litlu þjóð, Íslendingum, sé ætlað að leysa af hendi undursamlegt og göfugt hlutverk við fyrirhugaða stórviðburði í náinni framtíð. Höfundurinn er sannfærður um, að þetta mikla ætlunarverk Íslendinga muni verða til blessunar, eigi aðeins fyrir Íslendinga sjálfa, heldur og fyrir frændþjóðir þeirra, Norðurlandabúa, Engilsaxa og Kelta. Ég vil óska þess, að bæklingur þessi megi verða að nokkru gagni í því að hjálpa til að búa Íslendinga undir það, að taka við hinni miklu arfleifð sinni.1

Skýringarmynd úr riti á hindústönsku sem fjallar um framtíðarhlutverk Íslendinga samkvæmt spádómum Pýramídans mikla í Egyptalandi.

Skýringarmynd úr riti Adams Rutherfords, Hin mikla arfleifð Íslands, sem út kom á íslensku árið 1939

Í þessu smáriti er að finna tvo spádóma um Ísland og íslensku þjóðina. Fyrri spádómurinn segir frá því að árið 1941 munu Íslendingar öðlast fullkomið stjórnmálalegt frelsi. Samkvæmt sambandslögunum við Danmörku höfðu Íslendingar ekki lagalegan rétt til þess fyrr en tveimur árum síðar og þótti því flestum ólíklegt að spádómurinn rættist. Hernám Danmerkur í seinni heimsstyrjöldinni varð hins vegar til að breyta stöðu mála. Vorið 1941 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga sem gerði Ísland í raun að óháðu ríki. Sveinn Björnsson, síðar forseti, var kosinn ríkisstjóri og Bretar og Bandaríkjamenn viðurkenndu Ísland sem sjálfstætt ríki. Spádómurinn hafði komið fram.

Seinni spádómurinn á að gerast í ragnarökum núverandi menningar. Ísland verður eins og ljósdepill í myrkvuðum heimi og þá ,,munu Íslendingar taka sér fyrir hendur að leysa viðfangsefni, sem mikla blessun munu hafa í för með sér fyrir allt mannkynið". Íslendingar munu tendra það ljós, sem á eftir að valda andlegri endurvakningu er breiðist út með mörgum þjóðum. ,,Eldeyjan í vestri" á að verða oddviti eða ljósberi sem vísar mannkyni inn í nýtt tímabil sögunnar. Um hið göfuga hlutverk íslensku þjóðarinnar segir Rutherford meðal annars:

    Nú á dögum eiga sér stað miklar hreyfingar, en Ísland á bráðum, undir handleiðslu guðs, að hefja hina mestu andlegu hreyfingu vorrar aldar, þá hreyfingu, sem mun leiða allar þjóðir Bretlands og Norðurlanda inn í nýtt tímabil í sögu þeirra... Það, sem því liggur nú rakleitt fram undan, er, að Ísland nái skjótt andlegum yfirráðum, og áhrif þess munu, eins og stór viti, smám saman uppljóma hið mikla Bretaveldi og byrja á Skotlandi… Látum oss biðja þess, að guð hraði komu þess dags, er Ísland á að verða kallað Eyjan helga og Íslendingar Þjóðin helga. Látum alla, sem skilja, hve mikilsvarðandi þessi dásamlega köllun er, gjöra allt, sem þeir geta, Íslandi til upphafningar. Því að hinar voldugu engilsaxnesku þjóðir geta ekki til fulls tekið við arfleifð sinni, né heldur getur heimurinn gengið inn í blessunaröldina, sem hann á í vændum, fyrr en Ísland er undirbúið og komið inn á sjónarsviðið í skærum ljóma sem fyrirrennari hinnar dýrlegu, nýju aldar.2


Endurkoma Jesú Krists á Íslandi?


Í Matteusarguðspjalli segir Jesús Kristur við gyðinga: ,,Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess." Dr. Adam Rutherford trúði því að Íslendingar, en ekki gyðingar, væru guðs útvalda þjóð. Hann var sannfærður um að endurkoma Jesú Krists yrði á Íslandi. Því til staðfestingar bendir hann á tvo spádóma í Jesajabók og á sérstakan leiðarvísi í suðausturhorni Pýramídans mikla er vísar á Ísland. Leiðarvísirinn var fyrst uppgötvaður árið 1925 en fram að þeim tíma var aðeins vitað um einn leiðarvísi, svonefndan Betlehemsgeisla sem talið er að bendi á fæðingarstað Jesú Krists.

Um leiðarvísa Pýramídans mikla farast Rutherford svo orð:


    Eins og vér höfum sýnt fram á, myndar Reykjavíkurgeislinn vesturjaðarinn á Íslandsrákinni, og er hann sérstaklega þýðingarmikill sökum hinna mikilvægu andlegu tákna, sem við hann eru tengd. Einmitt í Pýramídanum mikla sjálfum gengur Reykjavíkurgeislinn beinlínis undir sæti toppsteinsins - en toppsteinninn sjálfur er fullkominn pýramídi að lögun og táknar Krist upprisinn og er hátt upphafinn sem stór táknsamlegur ,,höfuðsteinn". Alveg eins og Betlehemsgeislinn benti til þess, hvar Messías myndi koma í heiminn sem ungbarn, í fyrri tilkomu sinni, eins er um Reykjavíkurgeislann, að með því að ganga undir hinn háreista toppstein, vísar hann oss á, hvar fyrst eigi upp að renna - undir forystu Krists hins upprisna - hin nýja guðsríkis öld, þar sem að lokum verður vilji guðs ,,svo á jörðu sem á himni". Reykjavíkurgeislinn vísar oss á staðinn, þar sem enginn er herbúnaðurinn, þar sem sértrúarandinn er í raun og veru ekki til og þar sem kristilegt frelsi hefur yfirráðin. Reykjavík! Hversu háleitur heiður hlotnast þér! Reykjavík er þannig einstök borg - borg, sem kjörin er af guði í andlegum tilgangi.3


Ísland í spádómum Gamla testamentisins

Jesajabók er hin mesta af spámannabókum Gamla testamentisins. Hún skiptist í þrjá hluta og er safn af ræðum spámannsins Jesaja sem var uppi á 8. öld f.Kr. Í fyrsta hluta Jesajabókar eru spádómar sem fjalla um komandi ,,þrengingartíma" eða ,,efsta dag". Þar segir í 24. kapítula Jesaja:

,,Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna. Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa. Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið."

Nákvæmlega í miðju ógnarlýsinga Jesaja er skotið inn frásögn sem segir að á tilteknu svæði jarðar muni fólk vegsama guð og syngja honum lof. Adam Rutherford túlkar frásögnina þannig að meðan á þrengingunum standi muni stórfelld andleg vakning eiga sér stað á Íslandi. Spádómurinn er þannig samkvæmt þýðingu ensku Biblíunnar:

    Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign Drottins gjalla gleðiópin í vestri. Vegsamið þess vegna Drottin meðal eldanna, nafn Drottins, Ísraels guðs, á eyjum vestursins. Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrum vér lofsöngva: Dýrð sé hinum réttláta.4

Þrjú atriði eru tilgreind um staðinn þar sem þakkargjörðin á að heyrast innan um þjáningar veraldarinnar. Staðurinn er eyland því lofsöngvarnir eru sagðir koma frá eyjunum í vestri (,,á ströndum hafsins" samkvæmt íslensku Biblíunni). Einu stóru eyjarnar í vestri eru Bretlandseyjar og Ísland en það sem á eftir fer sýnir að mati Rutherfords að það er einkanlega Ísland sem átt er við og að það verður fólkið á þeirri eyju sem stuðlar að andlegri vakningu í öðrum löndum.

Í spádómunum er eyjarskeggjum lýst þannig að þeir búi innan um elda (,,á austurvegum" samkvæmt íslensku þýðingunni). Í okkar heimi vitum við ekki af öðrum eldum en jarðeldum og af þessum eyjum er það Ísland eitt sem hefur gjósandi eldfjöll. Að auki eru á Íslandi fleiri eldfjöll að tiltölu við stærð en í nokkru öðru landi. Hebreska orðið urim, sem er þýtt með eldar í ensku Biblíunni, merkir líka ljós (flt.). Hin einu náttúrlegu ljós á jörðinni, sem stórfelld mega heita, eru heimskautsljósin (norðurljósin og suðurljósin) og eina eyþjóðin, sem dvelur nægilega nærri öðru hvoru heimskautinu til að sjá ljósin greinilega hvarvetna á landinu, eru Íslendingar.

Spádómurinn staðgreinir eylandið þannig að það sé á ysta jaðri jarðarinnar eða, eins og fornþjóðirnar orðuðu það, Ultima Thule. Nafnið var um eitt skeið haft um ystu norðurvegu almennt en síðar var það bundið við Ísland. Ísland er vissulega ysti jaðar jarðarinnar því að handan við það er ekki annað en ísi þakið heimskautshaf. Eins og kunnugt er nemur norðurströnd Íslands við heimskautsbauginn.

Á öðrum stað segir Jesaja fyrir um komu Messíasar. Í 9. kafla Jesaja segir:

    Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós... Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómur hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi... Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

Jesaja spáir því að friðarhöfðinginn muni koma fram í ,,landi náttmyrkranna". Margir hyggja að Ísland sé ,,land náttmyrkranna" því hér á landi er vetrarsólin hlutfallslega lægst á lofti miðað við önnur byggð ból jarðar.


Kínverskir spádómar um Íslendinga


Fleiri þjóðir hafa að geyma spádóma sem vísa á Ísland. Samkvæmt fornkínverskum arfsögnum er Ísland ,,eitt hinna sjö dulrænu landa og það fjarlægasta". Sömu heimildir greina frá því að Snæfellsjökull sé ein af sjö orkustöðvum jarðar. Bretinn Michael Eyre kynntist hugmyndum kínverskra dulhyggjumanna varðandi sérstöðu Íslands. Í sendibréfi til Ásgeirs Sigurðssonar, aðalræðismanns Breta í Reykjavík, 4. maí 1921 gerir hann grein fyrir þessum hugmyndum. Þar ritar hann: ,,Ísland hefur algjöra sérstöðu í sögu mannkynsins. Þegar Norðmenn fundu það um 870 var það gjörsamlega óbyggt land. Það er ekkert til, sem hægt er að kalla upprunalegan íslenskan kynstofn. Þess vegna varð taka Íslands alveg sérstæð meðal allra landa veraldar og alveg karmalaus."

Michael Eyre víkur einnig að hugmyndinni um Ísland sem orkustöð jarðar. Hann segir: ,,Landið hefur þar að auki nokkur sérstæð einkenni. Það er eitt af hinum sjö chakra hnattarins, sem við byggjum. Það er að segja, það er hin eina starfandi lífstöð plánetuhringaflsins. Þegar við segjum chakra þá eigum við við miðdepil lífsaflsins eða lífsaflstöð. Af sjö slíkum stöðvum á hveli jarðar eru fimm óstarfandi, ein er hlutlaus: Hinn neikvæði endurkastandi á suðurhveli jarðar, en hin sjöunda er Ísland, sem er hin mikla sálræna miðstöð jarðarinnar. Miðdepillinn er Snæfellsjökull, en frá honum ganga tvær hvirfingasúlur, önnur er segulmögnuð en hin rafmögnuð. Hin fyrri streymir frá vestri til austurs en hin síðari rangsælis."

Í bréfinu skýrir hann jafnframt frá fornum kínverskum spádómum um framtíðarhlutverk Íslendinga. Þar segir:

    Öll eyjan er mjög næm fyrir sálrænum öflum og því er Ísland hinn ákjósanlegasti uppeldisstaður mikilmenna. Ísland á eftir að verða miðstöð voldugs andlegs vitsmunaríkis og til Íslands munu þjóðirnar leita um framfarir.5


Dulrænir hæfileikar Íslendinga

Nú á dögum eru margir Íslendingar forvitrir eða langsýnir. Margt bendir til að þessi hæfileiki - forspárgáfan - sé algengari en okkur í fljóti bragði grunar. Flestir hafa einhvern tímann skynjað óorðinn atburð eða fengið fyrirboð um örlög ákveðinnar atburðarásar, stundum í draumi eða sem tilfinningu, jafnvel eldsnöggt hugboð sem síðar reynist rétt. Dæmi eru um að þesskyns gáfa komi að notum í fjáröflunarskyni eða til að afstýra slæmum afdrifum, þó að flestir nýti sér hana lítt, horfi fram hjá henni eða flokki hana undir ,,tilviljun" þegar hennar verður vart.

Á Íslandi hefur komið út ógrynni bóka með frásögnum af skyggnum mönnum eða dulspökum og er það dómur fróðra manna að á slíku beri meira hjá okkur en hjá nokkurri annarri þjóð. Haraldur Níelsson prófessor hafði mjög yfirgripsmikla þekkingu á dulrænum hæfileikum Íslendinga. Í ferðum sínum um landið hafði hann tal af mörgum sem voru berdreymnir og með skyggnigáfu. Hann segir svo frá:

,,Á ferð minni kringum landið í sumar gerði ég mér far um að spyrjast fyrir um skyggnt fólk. Ég hygg, að töluvert hafi verið um þann hæfileika hjá þjóð vorri á öllum öldum. Skyggn kona var lengi á heimili foreldra minna, er ég var barn. Þar urðu hin ,,dularfullu fyrirbrigði" fyrst á vegi mínum. Þótt við unglingarnir reyndum að gera gys að ,,sýnum" hennar í fyrstu, komumst við að því með tímanum, að hún sá meira en við og sagði fyrir gestakomur, svo að ekki varð á móti mælt. Síðan hefi ég ekki efað, að sumir menn séu gæddir sérstökum hæfileika í þessa átt. Þeim hæfileika þarf að gefa meiri gaum en gert hefur verið."6

Dr. Erlendur Haraldsson, lektor í tilraunasálfræði við Háskóla Íslands, hefur á undanförnum árum annast umfangsmiklar rannsóknir á yfirskilvitlegum fyrirbærum. Könnun sem hann gerði á dultrú og forspárgáfu skólafólks staðfestir að hægt er að öðlast þekkingu án aðstoðar skynfæranna og að framtíðarskyggni búi ennþá með Íslendingum. Í samantekt um athugunina farast Erlendi svo orð:

,,Í heild virðast þeir, sem trúa á og lesa oft um dulræn efni, nota forspárgáfu sína til að fjölga réttum lausnum í forspárprófi en ,,vantrúarmennirnir" virðast nota sömu gáfu til að fækka réttum lausnum. Af einstökum hópum manna virðast ,,vantrúarmennirnir" sýna mesta forspárgáfu en nota hana til að komast á villigötur."7


Draumar og vitranir Íslendinga


Ljóst er að áhugi Íslendinga á huliðsheimi manns og náttúru hefur ævinlega verið mikill. Veruleikinn hefur reynst mörgum vandráðnari en svo að hugsunargrundvöllur efnishyggjunnar dugi ævinlega til skilnings. Á undanförnum árum hefur þess gætt í auknum mæli að fólk skýri frá dulsýnum sínum og annarri sálrænni reynslu. Þar hefur margt borið á góma, bæði margþætt og sérstætt, og ýmislegt sem er þess verðugt að um það verði ritað lengra mál en hér er gert. Könnun meðal Íslendinga sem búa yfir skyggnigáfu leiddi í ljós að þeir höfðu haft draumfarir sem bentu í sömu átt.8

Draumspakur maður og dulskyggn fékk ákveðnar upplýsingar í draumi:

    Farið var með hann í flugferð yfir svæðið næst höfuðborginni. Honum var sagt, að þáverandi tímatal væri 2020 og honum voru sýndar breytingarnar, sem orðnar voru. Hið helsta úr lýsingunni var það, að Hafnarfjörður var kominn undir hraun að miklu leyti. Byggðin á Seltjarnarnesinu öllu var eydd og gamli miðbær Reykjavíkur sokkinn í sæ. Þéttasta byggðin átti hins vegar að vera komin í Mosfellsdalinn.

Annar maður varð fyrir svipaðri reynslu í draumsvefni. Hann segir svo frá:

    Draumurinn var á þá lund, að ég þóttist sjá landabréf af Íslandi, sem var svarthvítt og flatt að öðru leyti en því, að Reykjanesið var marglitt og upphleypt eins og plastkortin líta út. Þetta var reyndar í fyrsta sinn, að ég sá upphleypt kort, þ.e. í draumnum. Mörkin milli litaða svæðisins og þess svarthvíta á kortinu voru lína sem lá í suðvestur-norðaustur og lá nokkurn veginn með Kleifarvatni endilöngu og síðan í norður í átt til Straumsvíkur. Eftir því, sem ég heyrði fleiri frásagnir af draumum varðandi þetta mál allt, þýddi ég drauminn á þann veg, að Reykjanesið muni klofna frá meginhluta landsins í stórbrotnum náttúruhamförum.

Sami maður segir að atburðarásin verði þannig:

    Eftir Vestmannaeyjagosið verður gos í Kröflu. Þar á eftir verður svo Suðurlandsskjálfti og Kötlugos. Nokkru síðar verður gos í Bláfjöllum.

Kona sem er sjáandi sá Reykjavík og nágrenni í framtíðarsýn. Henni virtist Reykjanesið hafði orðið fyrir stórfelldri jarðfræðilegri röskun. Hún segist ekki geta fullyrt hvenær þessu vindur fram, né hvort breytingarnar gerist með snöggum hætti eða smám saman. Frásögn hennar er þannig:

    Stór hluti Reykjavíkur er kominn undir sjó. Öskjuhlíðin og Langholtið eru óbyggðar eyjar. Valhúsahæðin og ýmsir aðrir staðir standa líkt og sker upp úr sjónum. Það er byggð í útjaðri Breiðholts, en þó fyrst og fremst við Úlfarsfell, upp Mosfellsdalinn og meðfram Kjalarnesinu.

    Ég sé að það hafa orðið miklar jarðhræringar og eldsumbrot á Bláfjallasvæðinu. Það leggur hraunstraum niður Elliðaárdalinn. Hafnarfjörður er í eyði og Grindavík hefur horfið með öllu. Það er engu líkara en að Reykjanesið hafi færst til í gífurlegum náttúruhamförum.

Ung kona sem er berdreymin og hefur orðið fyrir margvíslegum sálrænum viðburðum segir frá reynslu sinni á þennan veg:

    Þegar ég var á barnsaldri fór ég stundum ,,út úr líkamanum", bæði í svefni og vöku. Ég var þá oft komin upp undir loft og sá sjálfa mig liggjandi í rúminu. Ég gat svifið um á alla vegu, rétt eins og fugl, og séð það sem fyrir bar. Þessu fylgdi mjög ánægjuleg tilfinning og gerði ég þetta oft mér til dægrastyttingar. Ég ferðaðist stundum um allt húsið og gat fylgst með því sem foreldrar mínir voru að gera og segja í öðru herbergi og sagt þeim síðar frá því í smáatriðum. Þau trúðu mér þó ekki, töldu mig ljúga eða ásökuðu mig fyrir að hafa legið á hleri og njósnað um sig. Áður en Vestmanneyjagosið varð dreymdi mig það í þrjár nætur samfellt. Síðustu nóttina sá ég hvernig fólkið flúði í átt að bryggjunni og þegar ég vaknaði um morguninn leið mér vel því ég vissi að enginn hafði farist. Skömmu síðar fór ég í ferð um landið og var þá bent á þá staði þar sem yrðu eldsumbrot. Ég vissi að eftir Vestmannaeyjagosið yrði gos í Kröflu og því næst í Heklu. Þá verður einnig mikið eldgos nálægt Reykjavík. Rúmlega tvítug bjó ég í Efra-Breiðholti og dreymdi mig þá þennan draum. Mér fannst ég rísa úr rúmi mínu og ganga fram í stofu, að stofuglugganum. Þá sá ég sjón sem ég gleymi ekki á meðan ég lifi. Ég sá fólk flýja skelfingu lostið í átt að Mosfellssveit. Í áttina að Hafnarfirði var eldur og óhugnanlegur reykjarmökkur, sem færðist nær með braki og brestum. Vegna þess að flest af því sem mig hefur dreymt um framtíðina hefur komið fram varð ég mjög óttaslegin vegna þessa draums. Í margar vikur á eftir hafði ég alltaf til taks það allra nauðsynlegasta, ef til þess kæmi að ég þyrfti að flýja. Í nóvember 1987 dreymdi mig aftur Reykjavíkurgosið. Í Elliðaám sá ég glóandi hraunstraum. Þetta gerist að nóttu til og án nokkurs fyrirvara. Rafmagnið fer af og ég skynjaði hvernig undarleg og óþægileg lykt mengaði andrúmsloftið. Margir verða að flýja heimili sín. Mér finnst vera stutt í þennan atburð.

    Mig hefur einnig dreymt draum sem bendir til þess að landinu okkar verði stjórnað af útlendingum í trássi við vilja þjóðarinnar. Þegar það verður mun fólk lifa saman í litlum hópum og grafa sér byrgi til þess að verjast hættu sem berst með vindinum. Það verður starfandi skipulögð andspyrnuhreyfing þó að flestir sætti sig við ríkjandi ástand.

 

 

Tekið úr bókinni Nostradamus og spádómarnir um Ísland eftir Guðmund Sigurfrey Jónasson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda

þrátt fyrir að þetta sé old news fyrir sumum þá er þetta alltaf jafn fróðlegt. Ég hef lesið þetta áður og mun lesa þetta aftur og ég vona að það sé ekkert til í þessum með eldgosin og það allt saman, en viti menn, við búum á íslandi, svo það er ekki hjá því komist að eitthvað þessu líkt mun ske.

Linda, 19.12.2007 kl. 16:56

2 Smámynd: Árni þór

las þetta sem unglingur

Árni þór, 20.12.2007 kl. 01:14

3 Smámynd: Árni þór

En það eru færri sem vita að það eru fullt að Kristnum spádómum þessu varðandi, ég á eftir að opna síðu bara um slíkt síðar.  þá er ég að tala um spádóma sem hafa komið á okkar kynslóð

Árni þór, 20.12.2007 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband